Fréttabréf sent til félagsmanna 30. desember 2016

  • By glod
  • 10. January, 2017
  • Comments Off on Fréttabréf sent til félagsmanna 30. desember 2016
Kæru félagsmenn.   Stjórn Íþróttafélagsins Glóðar óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir árið sem senn er á enda.   Eins og mörgum í okkar röðum er nú kunnugt hefur Ólafur Geir Jóhannesson danskennari Glóðar til nokkurra ára, sagt upp störfum sínum hjá Íþróttafélaginu Glóð. Um leið og við þökkum honum gott starf fyrir félagið og óskum honum velfarnaðar á öðrum vettvangi þá bjóðum við nýja danskennara velkomna til starfa. Við höfum verið svo heppin að fá til liðs við okkur tvo frábæra og mjög vana danskennara, þær Lizy Steinsdóttur og Ingibjörgu Róbertsdóttur. Þær munu kenna línudans og fleiri dansa á sömu tímum og við höfum verið á og á sömu stöðum. Engin breyting þar á. Eina breytingin er að það eru nýir kennarar J   Stjórn Glóðar horfir björtum augum á framhaldið og hlakkar til að vinna með þeim stöllum. Þar sem við höfum ekki netföng allra félagsmanna Glóðar og þeirra sem hafa nýtt sér námskeiðin, viljum við biðja ykkur að láta fréttirnar berast sem víðast. Við munum reyna að auglýsa í Kópavogsblöðunum í janúar en við byrjum þriðjudaginn 10. janúar 2017.   Stjórnin hefur stöðugt unnið að því innan raða félagsins að efla félagsandann og fjölga félagsmönnum. Okkur þætti óskaplega vænt um að þið, kæru félagsmenn, kæmuð með okkur í þá vinnu að efla félagsandann, finna fleiri félagsmenn og ekki síst, að senda okkur hugmyndir um það sem ykkur langar til að gera. Þetta er allt mjög mikilvægt fyrir félagið.   Við erum þroskað fólk sem vill storka elli kerlingu, með því að vera virk og líkamlega vel á okkur komin og sláum á þau sjónarmið sem stundum eru á lofti um að það sé of seint að fara að hreyfa sig! Nú er um að gera að koma í danstímana og liðka sig.   Glóð hefur verið með tíma í boccia og ringó sem Sigríður Bjarnadóttir, formaður íþróttanefndarinnar hefur haft veg og vanda af. Þetta eru mjög skemmtilegar íþróttagreinar sem henta okkur vel. Okkur vantar fleiri iðkendur! Glóð ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í landsmóti UMFÍ 50+ næsta sumar og væri kærkomið að sjá ykkur. Endilega hafið samband við mig eða Sigríði, við munum með ánægju svara spurningum ykkar.   Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í blómabænum Hveragerði næsta sumar. Gert er ráð fyrir miklum fjölda þátttakenda á mótið. Eins og nafnið gefur til kynna er mótið hugsað fyrir þátttakendur á aldrinum 50 ára og eldri. Boðið verður upp á fjölda íþróttagreina, allt frá sundi og bridds til þríþrautar. HSK er mótshaldari og er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið á svæði HSK. Mótið hefur stækkað mikið frá því það var fyrst haldið og viðburðum í tengslum við það fjölgað. Mótið sýnir að eftirspurn er eftir fjölbreyttu íþróttamóti hjá þessum aldurshópi. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið helgina 23.-25. júní 2017. Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ var haldið á Hvammstanga árið 2011. Á þessu ári var það haldið í byrjun júní á Ísafirði. Mótið í Hveragerði verður sjöunda mótið fyrir 50 ára og eldri sem UMFÍ heldur.   Um miðjan janúar verður mjög líklega námskeið og fræðsla sem ber heitið „Fundarmenning sem virkar“ og er í umsjón Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK). Verður auglýst síðar.   Aðalfundur Glóðar verður á sínum stað eftir 20. janúar. Verður auglýst síðar. Það vantar fólk í stjórnina og nýjan formann. Endilega að gefa kost á sér, hafa samband við mig og ég mun koma skilaboðum til uppstillinganefndar.   Félagið var stofnað 24. október 2004 það er því orðið 12 ára gamalt, búið að slíta barnsskónum. Nú er það í okkar höndum að halda því góða starfi áfram sem stofnendur þess væntu. Það er svo undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst með framhaldið.   Með hátíðar- og nýárskveðju. Fyrir hönd stjórnar Íþróttafélagsins Glóðar, Margrét Björnsdóttir, formaður
Categories: Uncategorized

Comments are closed.